Erlent

Breskir ríkisstarfsmenn fjölmenna til Peking

Bretar senda rúmlega þrjú hundruð íþróttamenn á Ólympíuleikana í Peking en gestir á vegum breska ríkisins eru helmingi fleiri. Þetta kemur fram í breska blaðinu the Daily Telegraph. 313 íþróttamenn keppa fyrir hönd Bretlands á leikunum en rúmlega 600 einstaklingar sækja leikana heim í boði ríkisins.

Þetta hefur verið gagnrýnt þónokkuð í Bretlandi og bent á mikla aukningu á milli leika, en árið 2004 mætti þáverandi forsætisráðherra Tony Blair með sjö starfsmenn með sér. Gordon Brown kemur hins vegar með 20 starfsmenn með sér til Peking auk þess sem ráðuneyti íþróttamála mun senda 13 manns og önnur ráðuneyti 11.

Ólympíuleikarnir verða næst haldnir í London og því benda stjórnvöld á að mikilvægt sé að menn afli sér reynslu á slíkum viðburði með því að kynna sér leikana í ár. Sú reynsla gæti þó farið fyrir lítið þar sem ýmislegt bendir til þess að Verkamannaflokkurinn verði ekki við völd árið 2012 og ráðuneytsfólkið verði því væntanlega horfið til annara starfa. Auk þessa borga breskir skattgreiðendur fyrir ferð um 50 lögreglumanna á leikana.

Engin ríkisstofnun slær þó breska ríkisútvarpinu BBC við, því á vegum þess verða 437 starfsmenn í Peking á meðan á leikunum stendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×