Innlent

Veiðimet slegin víða í sumar

Veiðimet hafa verið slegin í mörgum ám í sumar. Veiðin hefur verið best í ám á landinu sunnan og vestanverðu. Norðan og austanlands hefur veiðin heldur lakari, þó hún sé víða einnig ágæt á þeim svæðum. Í Borgarfirði og á Mýrum hefur hver áin eftir aðra verið að slá öll fyrri veiðimet, sum æði gömul, eftir því sem fram kemur á vefsíðu Landssambands veiðifélaga.

Landssamband veiðifélaga segir að Haffjarðará, sem áður hafi mest gefið 1290 laxa veiði sé nú komin á þriðja þúsundið. Hítará fari úr 706 löxum í 1289 og Álftá úr 485 í 651. Þá hafi veiði í Langá aukist um að minnsta kosti 550 fiska og Gufuá, sem reyndar hafi ekki langa skráningu sem stangaveiðiá, slái líka fyrra met. Um 170 fleiri fiskar hafi veiðst í Norðurá, Flókadalsá ríflega 150 og Grímsá sömuleiðis yfir 80. Þá fari veiðitölur úr Andakílsá úr 331 fiski upp í að minnsta kosti 665. Þar sé þó veiði ekki alveg lokið svo munurinn geti enn aukist. Þá megi geta þess að líklega sé Norðlingafljótið einnig að setja met, en þaðan hafi engar nákvæmar tölur borist.

Víðar á landinu séu gömul met einnig að falla. Ytri Rángá, með vesturbakka Hólsár muni örugglega gera meira en tvöfalda fyrra hámark. Leirvogsáin slái metið einnig og muni líklega verða hæst sjálfbærra veiðiáa hvað varði dagveiði á hverja stöng þetta árið. Þá falligömlu metin einnig í Krossá á Skarðsströnd og Hvannadalsánni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×