Innlent

Kröfu Jóns um tvo verjendur vísað aftur heim í hérað

Þrír sakborninga í málinu við þingfestingu í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Þrír sakborninga í málinu við þingfestingu í Héraðsdómi Reykjavíkur. MYND/AP

Hæstiréttur vísaði í dag aftur heim í hérað kröfu Jóns Ólafssonar athafnamanns um að Sigurður G. Guðjónsson og Ragnar Aðalsteinsson yrðu báðir verjendur hans í máli efnhagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra á hendur Jóni vegna meintra skattalagabrota.

Eins og fram hefur komið er Jón sakaður um að hafa skotið um 360 milljónum króna undan skatti á árunum 1999-2002. Þrír aðrir menn, Hreggviður Jónsson, Ragnar Birgisson og Símon Ásgeir Gunnarsson, sem allir tengdust rekstri Norðurljósa og Íslenska útvarpsfélagsins, eru einnig sakaðir um brot á skattalögum.

Héraðsdómur hafði fyrr í sumar hafnað þeirri kröfu að Sigurður yrði verjandi Jóns en saksóknari hafði bent á að Sigurður yrði hugsanlega kallaður til sem vitni í málinu.

Við fyrirtöku málsins kom upp misskilningur á milli saksóknara og dómara annars vegar og verjandans Ragnars Aðalsteinssonar hins vegar, þar sem Ragnar hafði gert ráð fyrir því að geta gert grein fyrir máli sínu áður en úrskurður yrði kveðinn upp. Dómari las hins vegar úrskurðinn upp um leið og þinghald hófst. Ragnar sagði eftir þinghaldið að dómara hefðu orðið á mikil réttarfarsleg mistök og að málið yrði kært til Hæstaréttar.

Hæstiréttur fjallaði um málið í dag og komst að þeirri niðurstöðu að verjandi Jóns hefði ekki þurft að vænta annars en að tækifæri gæfist til að rökstyðja kröfu Jóns frekar áður en afstaða yrði tekin til hennar, en í því sambandi yrði ekki horft fram hjá því að ekkert væri fært til bókar um að héraðsdómari tæki þetta atriði til úrskurðar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi til þess að héraðsdómari tæki á ný afstöðu til kröfu Jóns að gættum nauðsynlegum undirbúningi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×