Erlent

Herforingjarnir í Búrma draga lappirnar

Áhyggjur manna aukast dag frá degi yfir þeirri tregðu sem yfirvöld í Búrma virðast vera haldin til að samþykkja aðstoð erlendis frá vegna hamfarana sem riðið hafa yfir landið í kjölfar fellibylsins Nargis.

Bandaríkjamenn hafa staðfest að flugvélar á þeirra vegum sem flytja eiga lífsnauðsynjar til landsins hafi fengið lendingarleyfi en lengi vel vildu yfirvöld í Burma ekki heimila flugið. Flugvélar á vegum Sameinuðu Þjóðanna bíða enn eftir leyfi. Bandarískur diplómat sagði ástandið á svæðunum sem verst urðu úti skelfilegt og að tala látinna gæti farið í hundrað þúsund þar sem ástandið versni með hverjum deginum sem líður án þess að fullnægjandi hjálp berist.

Þeir hjálparstarfsmenn sem komist hafa til strandhéraðanna þar sem flóðbylgjan reið yfir segja skelfilega sögu. Rotnandi lík liggi sem hráviði út um allt og þeir sem komust af berjast hatramlega um drykkjarvatn og matvæli. Um milljón manns eru nú heimilislaus og enn eru stórir hlutar landsins mikið til undir vatni sem eykur mjög hættuna af smitsjúkdómum.

Herforingjastjórnin í Rangoon hefur þráast við að taka við þeirri aðstoð sem þeim er boðin og meðal annars höfnuðu þeir tilboði bandaríkjamanna um að nýta herskip flotans í hjálparstarfið. Þá bíða fjölmargir hjálparstarfsmenn í Bangkok eftir landvistarleyfi inn í Burma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×