George Bush Bandaríkjaforseti er nú á leið til Kína þar sem hann verður við setningu Ólympíuleikanna á föstudaginn.
Á leiðinni kemur Bush við í Suður-Kóreu þar sem hann mun hitta Lee Myung-bak forseta og væntanlega ræða kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu og fleiri tengd mál. Hann fer þaðan til Bangkok í Taílandi en gert er ráð fyrir talsverðum hátíðahöldum þar í tilefni komu forsetans því þar er nú þess minnst að Taíland og Bandaríkin hafa verið í stjórnmálasambandi í 175 ár.
Í Beijing hittir Bush forseta Kína, Hu Jintao, og sér fyrsta leik bandaríska körfuboltaliðsins á sunnudag, sem verður á móti Kína.