Skoðun

Með þakklæti og handboltakveðju

Guðmundur Ingvarsson og Ólafur Stefánsson skrifar

Viðburðaríkasta vika í sögu handknattleiks á Íslandi er nú að baki. Landslið karla í handknattleik og stjórn HSÍ vilja með örfáum orðum þakka fyrir þá gríðarlegu samstöðu og stuðning sem við höfum fundið fyrir frá þjóðinni allri.

Íþróttamenn eru ávallt stoltir af því að keppa undir merkjum Íslands og á Ólympíuleikum getur heilbrigt þjóðarstolt verið mikill drifkraftur til árangurs. Það var landsliðinu í handbolta mikils virði að finna stuðning forseta landsins og ráðherra íþróttamála á keppnisstað í Kína. Leikmenn leyfðu sér margir að túlka það sem táknræna nærveru þjóðarinnar allrar, enda sá liðið jákvæðni í hverju horni, eins og landsmenn þekkja. Landslið karla í handknattleik hefur áður fundið meðbyr hjá þjóðinni en líklega aldrei eins sterkt og á þessum leikum.

Þegar kom að því að taka á móti silfurverðlaunum var það stór stund fyrir leikmenn og hópinn allan. En þær mögnuðu móttökur sem liðið fékk, þegar íslenska þjóðin fagnaði heimkomunni, tóku öllu fram sem þessi hópur hefur áður upplifað. Ráðherra íþróttamála lofaði okkur góðum móttökum þegar heim kæmi, en engan okkar óraði fyrir því að hún og hennar ráðuneyti, ásamt borgaryfirvöldum, gætu skipulagt heila „þjóðhátíð" með svo skömmum fyrirvara.

Handboltalandsliðið og handknattleikshreyfingin vilja láta í ljós þakklæti fyrir stuðninginn, móttökurnar og þá jákvæðu strauma sem við höfum fundið. Sá fjárhagslegi styrkur sem nú berst handboltanum í landinu, gefur auk þess von um fleiri þjóðhátíðir í framtíðinni.

Íslensk þjóð er að læra að láta ekkert „bíb" skemma einbeitinguna og einblínir þess í stað á jákvæðni og metnaðarfull markmið.

Takk fyrir okkur - og áfram Ísland.

Guðmundur Ingvarsson er formaður HSÍ. Ólafur Stefánsson er fyrirliði landsliðs karla í handknattleik.






Skoðun

Sjá meira


×