Erlent

Ein milljón manna heimilislaus í Búrma

Ræktarland er víða ónýtt í Búrma.
Ræktarland er víða ónýtt í Búrma. MYND/AP

Ein milljón manna er heimilislaus eftir yfirreið fellibyljarins Nargis yfir Búrma um helgina samkvæmt mati Sameinuðu þjóðanna. Þá eru um fimm þúsund ferkílómetrar lands enn undir vatni í Irawaddy-héraði sem er við strönd landsins.

Þegar hefur verið greint frá að ríflega 22 þúsund manns séu látnir og þá er yfir 40 þúsund saknað eftir hamfarirnar. Reiði og örvæntingar gætir meðal íbúa Rangoon, stærstu borgar landsins, en íbúar hafa verið án helstu nauðþurfta frá því um helgina. Hefur ríkisstjórnin nú ákveðið að afnema bann við innflutningi eldsneytis á vegum einkafyrirtækja en mikill eldsneytisskortur er í landinu.

Stjórnvöld og hjálparstofnanir víða um heim hafa þegar lofað 28 milljónum dollara, jafnvirði rúmlega tveggja milljarða íslenskra króna, í neyðaraðstoð ýmiss konar til Búrma. Miklar skemmdir hafa orðið á hrísgrjónaræktarsvæðum í landinu og telja Sameinuðu þjóðirnar að það muni hafa veruleg áhrif útflutning á hrísgrjónum frá landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×