Innlent

Háskólamenn semja um 20.300 króna hækkun

Á myndinni eru Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, Ásmundur Stefánsson, ríkissáttasemjari og Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM
Á myndinni eru Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, Ásmundur Stefánsson, ríkissáttasemjari og Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM

Samkomulag hefur náðst milli 23 stéttarfélaga í BHM-samstarfinu og fjármálaráðuneytisins um framlengingu á kjarasamningum til marsloka á næsta ári. Félagsmennirnir fá, að sögn Gunnars Björnssonar, formanns samninganefndar ríkisins, krónutöluhækkun upp á 20.300 krónur eða sömu krónutöluhækkun og samið var um í febrúar. Í yfirlýsingu frá BHM segir að laun hækki um rúm sex prósent að meðaltali frá 1. júní.

Misjafnt er milli félaga hvernig krónutöluhækkunin kemur út. Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM, vildi í kvöld ekki upplýsa hvaða hópar fengju mesta hækkun og hverjir minnsta.

Gunnar segir að hækkunin sé á bilinu fjögur til átta prósent eftir félögum. Vísindasjóður sé lagður niður og það komi til hækkunar á launatöflu. Samkomulagið felur einnig í sér endurskoðun á starfsmenntunarmálum.

Guðlaug segir að félagsmennirnir taki á sig kjaraskerðingu í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar. „Við völdum skásta kostinn í þeirri þröngu stöðu sem við vorum í," segir hún.

Ljósmæður hafa sagt sig úr BHM-samstarfinu. Bára Hildur Jóhannsdóttir, formaður kjaranefndar, segir að þær vilji að ríkið meti meistaranám þeirra í launum og grípa þurfi til aðgerða til að sporna við fækkun í stéttinni.

Samkomulag BHM nær til um fimm þúsund launþega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×