Innlent

,,Málið er ekki í upplausn"

Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnar Faxaflóahafna
Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnar Faxaflóahafna

Júlíus Vífill Ingvarsson formaður stjórnar Faxaflóahafna segir að bókun Faxaflóahafna um Geirsgötustokk hafi verið gerð í ,,góðu samkomulagi" við Gísla Martein Baldursson formann umhverfis- og samgönguráðs. ,,Ég hef vissulega rætt þetta við hann og lét hann vita fyrir fram af þessari hugsanlegu bókun Faxaflóahafna."

Stjórn Faxaflóahafna lagði til í bókun á mánudag að fyrirhugaðir umferðarstokkar á Geirsgötu og Mýrargötu verði sameinaðir í ein göng. Sá stokkur myndi liggja frá Ægisgötu og út í Ánanaust.

Í byrjun mánaðarins sagði Gísli Marteinn að sátt væri um niðurstöðu starfshóps sem hann fór fyrir og fjallaði um Geirsgötustokk. Í tillögum starfshópsins mun umferð úr göngunum koma upp við Miðbakka fyrir framan Tollhúsið.

Mun beita sér á ýmsum vígstöðum

,,Málið er ekki í upplausn," segir Júlíus Vífill og ,,í rauninni er ekki neinn ágreiningur innan meirihlutans varðandi verkefnið." Stjórn Faxaflóahafna felst ekki á að umferð úr Geirsgötustokk komi upp við Miðbakka þar sem höfnin sé hluti miðborgarinnar. Auk þess er fjárhagslega hagkvæmt sameina göngin að mati Júlíusar.

Júlíus segir að hann voni að stokkurinn fari í framkvæmd í þeirri mynd sem Faxaflóahafnir leggja til. ,,Ég mun beita mér fyrir því á ýmsum vígstöðum þar sem hugmyndin kemur inn á margt."

Stokkar óráð að mati VG

Í bókun Vinstri grænna á fundi umhverfis- og skipulagsráðs síðast liðinn mánudag kemur fram að flokkurinn telur stokka vera ,,barns síns tíma og mikið óráð." Það sé liðinn tíð að einkabílinn ,,eigi rétt á því að fara alls staðar óhindrað um."

Júlíusi þykir afstaða Vinstri grænna vera gamaldags. Það komi honum ekki á óvart að flokkurinn setji í ,,andstöðustellingar" þegar mál eins og þetta komi upp. Júlíus segir stóran hluta umferðar erlendis fara oft á tíðum fram neðanjarðar. ,,Það er lausn sem oftar en ekki er nauðsynleg og í þessu tilfelli er hún að minnsta kosti mjög æskileg."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×