Lífið

Roger Moore telur nýju myndina ofbeldisfulla

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Roger Moore á blómaskeiði sínu.
Roger Moore á blómaskeiði sínu. MYND/United Artists

Gamla James Bond-brýnið Roger Moore telur nýjustu Bond myndina, Quantum of Solace, vera allt of ofbeldisfulla.

Moore, sem er rétt skriðinn inn í níræðisaldurinn, orðinn 81 árs gamall, segir ofbeldið sennilega vera tímana tákn og þetta sé það sem gestir kvikmyndahúsa vilji sjá. Hann telji ofbeldið þó keyra úr hófi fram í nýju myndinni og minnist þess að yfirbragð myndanna hafi verið allt annars eðlis þegar hann túlkaði njósnara hennar hátignar í sjö kvikmyndum árin 1973 til 1985.

Varla eru allir sammála þessum aðdróttunum Moore, sem þótti einmitt óvenjuháttvís sem James Bond, þar sem Quantum of Solace, nýjasta myndin, hefur þegar halað inn yfir eitt hundrað milljónir dollara síðan sýningar hófust. Þá upphæð má margfalda með 134 krónum miðað við síðustu þekktu stöðu dollarans svo einhverjir eru að heimsækja kvikmyndahúsin þessa dagana.

Moore vinnur nú að endurminningum sínum um Bond-feril sinn og minnist þess þar meðal annars þegar þeim Grace Jones sinnaðist verulega við tökur á Bond-myndinni A View to a Kill árið 1985 en þár játar Moore að hafa grýtt stól í vegg í bræði sinni yfir því hve leikkonan lék að jafnaði háværa tónlist á tökustað. Fróðlegt að frétta af þessu 23 árum síðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.