Innlent

Ólafur segir Breta þurfa að taka sig saman í andlitinu

„Ef Bretar vilja vera tæknilegur leiðtogi og í fremstu röð í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun, þurfa þeir að taka sig saman í andlitinu, í allri hreinskilni," sagði Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands í viðtali við Sky sjónvarpsstöðina bresku á dögunum.

Nær allt rafmagn sem framleitt er á Íslandi er „grænt", úr jarðvarma og vatnsaflsvirkjunum. Bretar framleiða hins vegar mest af sinni raforku með kola- og kjarnorkuverum.

Fréttamaður Sky var staddur hér á landi í síðustu viku og ræddi þessi mál meðal annars við Ólaf Ragnar.

Ólafur var ómyrkur í máli í viðtali sínu við fréttakonuna Catherine Jacob sem hefur eftir honum að Bretar væru að vanrækja tækifæri sín á sviði hreinnar orku. „Ég verð að segja, með fullri virðingu, að ég hef ekki skilið af hverju breskar ríkisstjórnir - úr hvaða flokki sem er - hafi ekki gert meira til að kanna og koma á fót öðrum uppsprettum orku," sagði Ólafur.

„Takið Danmörk sem dæmi," heldur Ólafur áfram. „Landið er orðið leiðandi á sviði vindorku, staða sem Bretland hefði getað náð. Og nú eru dönsk fyrirtæki í viðskiptum út um allan heim vegna sérfræðiþekkingar sinnar á vindorku."

Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands stendur nú frammi fyrir þeirra ákvörðun hvort byggja eigi ný kolaorkuver í landinu til að mæta aukinni raforkuþörf. Aðspurður hvort hann teldi að Brown væri að gera mistök samþykkti hann byggingu nýrra kola- eða kjarnorkuvera sagði Ólafur: „Ég tel að hvaða ríkisstjórn eða þjóðarleiðtogi sem er, hvar sem er í heiminum, þurfti að hugsa það alvarlega áður en ákveðið er að byggja ný kolaorkuver."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×