Innlent

Íslendingur setti hundasleða-heimsmet í Noregi

Þorsteinn Sófusson við æfingar.
Þorsteinn Sófusson við æfingar.

Þorsteinn Sófusson, Íslendingur búsettur í Noregi, setti í dag heimsmet ásamt félögum sínum þegar þeir spenntu 57 sleðahunda fyrir dráttarvél og létu þá draga hana fjögurra kílómetra langa leið. Þorsteinn er mikill áhugamaður um sleðahundahlaup en nú er undirbúningur fyrir komandi keppnistímabil í fullum gangi.

„Við höfum verið að æfa stíft og okkur datt í hug að spenna alla hundana okkar fyrir í einu. Met sem þetta hefur aldrei verið skráð og því er um heimsmet að ræða," segir Þorsteinn í samtali við Vísi en tiltækið hefur vakið mikla athygli í norskum miðlum í dag. Þorsteinn segir að þeir félagar ætli að hafa samband við Heimsmetabók Guinnes og fá metið fært til þeirrar merku bókar.

Að sögn Þorsteins gekk tilraunin vel að mestu leyti og að hundarnir, sem eru sérræktaðir sleðahundar af Alaska husky kyni, hafi farið létt með að draga traktorinn.

Tiltækið var eins og áður sagði hluti af komandi keppnistímabili en sleðahundahlaup er vinsæl íþrótt í Noregi. Ef allt gengur eftir verður Þorsteinn á meðal þáttakanda í Femundlöbet 2009, fyrstur Íslendinga, en þar er um að ræða fjölmennastu sleðahundakeppni í heimi.

Norska ríkissjónvarpið gerði metinu góð skil og hér má sjá umfjöllun og myndband af tiltækinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×