Innlent

Dæmdur fyrir að kýla dyravörð og hóta lögreglu

Mynd/Vísir

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás og hótanir í garð lögreglumanns.

Atburðirnir áttu sér stað fyrir um tveimur árum á skemmtistað í Vestmannaeyjum. Samkvæmt ákæru var manninum gefið að sök að hafa slegið dyravörð á skemmtistaðnum í andlitið þannig að hann hlaut skurð á efri vör og missti framtönn. Þá var ákærður fyrir að hafa í kjölfar þess að lögregla hafði afskipti af honum, veist með ofbeldi og hótunum um líflát að lögreglumanni.

Maðurinnn neitaði sök varðandi báða ákæruliði en út frá framburði vitna var hann sakfelldur fyrir líkamsárásina og fyrir að hafa hótað lögreglumanni lífláti. Segir í dómnum að árásin á dyravörðinn hafi verið algjörlega tilefnislaus og ósvífin. Hótunin gagvart lögreglumanninum hafi verið gróf og til þess fallin að vekja hjá lögreglumanninum ótta um líf sitt og heilsu.

Auk fimm mánaða skilorðsbundins fangelsis var árásarmaðurinn dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu um 350 þúsund krónur í bætur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×