Innlent

Flutningur flugvallar gerir Reykjavík að verst tengdu höfuðborg Evrópu

Flutningur á öllu innanlandsflugi til Keflavíkur myndi gera Reykjavík að verst tengdu höfuðborg í Evrópu, sagði Matthías Sveinbjörnsson hjá Flugmálafélagi Íslands á málþingi um flugvöllinn í morgun.

Samgöngur þjóðar - lífæð borgar - Reykjavíkurflugvöllur í brennidepli, var yfirskrift málþings sem haldið var í flugskýli 25 á Reykjavíkurflugvelli nú í morgun. Þar tókust nú ekki á andstæðar skoðanir um framtíð flugvallarins enda málþingið á vegum Flugstoða. Raunar sveif nostalgían nokkuð drjúgt yfir vötnum.

Ögmundur Jónasson sem er alinn upp í nágrenni flugvallarins lýsti því líka hvernig hljóðið í rellunum á vorin hefðu boðað vorkomuna. Að fortíðarþránni slepptri lýstu þarna nánast allir ræðumenn nauðsyn áframhaldandi veru flugvallarins á sínum stað.

Matthías Sveinbjörnsson hjá Flugmálafélagi Íslands sagði tæplega 500 þúsund farþega fara um flugvöllinn á ári hverju, um 200 sjúkraflug og að um 400 störf væru þarna beintengd flugi sem myndu hverfa úr Vatnsmýri ef flugvöllurinn færi. Hann sagði jafnframt að flugvöllurinn væri búinn að vera í spennitreyju frá stríðsárum.

Gestur Ólafsson skipulagsfræðingur sagði að allt logaði í illdeilum um landið vegna skipulags og menn þyrftu að fara að taka sér tak í þessum málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×