Innlent

Grænir fingur í grjótinu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Aðstaðan innan girðingar er hin myndarlegasta og áhuginn klárlega til staðar.
Aðstaðan innan girðingar er hin myndarlegasta og áhuginn klárlega til staðar. MYND/Auður I. Ottesen

Tímaritið Sumarhúsið og garðurinn gengst nú fyrir fjársöfnun til að standa straum af kaupum á gróðurhúsi handa föngunum á Litla-Hrauni en þar á bæ ku mikill áhugi á matjurtarækt hafa gripið um sig.

„Mér er hjartans mál að veita föngum tækifæri til að rækta allan ársins hring, betrunin sem felst í þeirri ræktun sem nú er hafin á Litla-Hrauni er strax farin að sýna umtalsverðan árangur og er mér kappsmál að svo verði áfram," segir Auður I. Ottesen, ritstjóri Sumarhússins og garðsins, en hún hefur veg og vanda af söfnuninni.

Í nýútkomnu tölublaði Sumarhússins og garðsins er fjallað ítarlega um heilsuátak fanga á Litla-Hrauni og segir þar meðal annars frá matjurtarækt sem Margrét Frímannsdóttir fangelsisstjóri veitti föngunum góðfúslega leyfi til að stunda og fékk að auki aðstoð frá Gróðrastöðinni Storð ásamt því að kalla til skólastjóra Hússtjórnarskólans og matreiðslumeistara til að kenna grundvallaratriðin í eldhúsinu.

Magga „heavy" opin fyrir þessu

Einn fanganna, sem nefndur er A, er tekinn tali í grein Sumarhússins og garðsins og sparaði sá ekki lofið eins og sést á þessum ummælum hans: „Magga fékk kokk til að koma til að kenna okkur að matbúa og hann færði okkur krydd og tómatplöntur sem ég sé um. Magga er svo „heavy" opin fyrir þessu," sagði fanginn um þetta nýsprottna tómstundagaman sem ef til vill er þó orðið eitthvað meira þar sem hópur fanga á meðferðargangi Litla-Hrauns eldar nú sinn eigin mat.

Allir þeir sem vilja leggja málefninu lið geta haft samband Auði I. Ottesen í síma 578-4800 eða á netfangið audur@rit.is eða lagt inn á reikning 101-26-171717, kt. 481203-3330.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×