Innlent

Lögreglustjóri fær ekki afhentan hund til aflífunar

Héraðsdómur Suðurlands hefur hafnað kröfu lögreglustjórans á Selfoss um að maður afhendi hund sinn til aflífunar eftir að tilkynnt var um að hann hefði bitið barn. Var það gert þar sem kröfunni var beint að röngum aðila.

Þetta var í annað sinn sem dómurinn fjallaði um málið en Hæstiréttur hafði vísað málinu aftur í hérað eftir að Héraðsdómur Suðurlands hafði komist að því að manninum bæri að afhenda hundinn. Hæstiréttur komst að því að manninum hefði ekki verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna í málinu og það færi gegn stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. Því bæri að taka málið aftur fyrir í héraði.

Lögregla hafði krafist þess að fá hundinn afhentan þar sem eigandinn hafði ekki lógað honum eins og lögregla hafði lagt fyrir hann vegna tilkynningar um að hundurinn hefði bitið barn.

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Suðurlands að rekja megi atvikið til þess að börn hafi verið að leika við hundinn. Þau hefðu dregið ermar fram yfir fingur sér og látið hundinn tosast á við sig. Á einhverjum tíma hefði hundurinn rifið í eina ermina og eitt barnið rispast á fingri. Fram kom í mati hundatferlisráðgjafa að hundurinn væri hvorki árásargjarn né hættulegur.

Dómurinn sagði enn fremur að rannsóknarskyldu í málinu hefði ekki verið sinnt og benti á að heilbrigðisnefnd Árborgar hefði ekki komið að málinu eins og samþykkt Áborgar um hundahald kvæði á um slíkt. Þá lægi fyrir að hundurinn hefði verið fluttur til Reykjavíkur og hefði lögreglustjórinn á Selfossi ekki stjórnsýsluvald í því umdæmi.

Dómurinn benti enn fremur á að eftir að Hæstiréttur komst að því að héraðsdómur ætti að fjalla aftur um málið hefði komið fram að maðurinn ætti ekki hundinn heldur sambýliskona hans. Þrátt fyrir þetta hefði ákæruvaldið ekki lagt fram nýja kröfu og beint henni að réttum aðila. Því væri kröfunni um afhendingu hundsins hafnað.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×