Innlent

Björn sagður í Kalda-stríðsham

„Það er mikilvægt að senda skýr skilaboð inn í framtíðina að við tökum það grafalvarlega ef friðhelgi einkalífsins er brotin," sagði Helgi Hjörvar við utandagskrárumræður á Alþingi nú undir kvöld. Tilefni umræðanna voru símhleranir á árunum 1949 - 1968.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði fráleitt að halda því fram að dómarar á þessu tímabili hefðu verið viljalaus verkfæri í höndum dómsmálaráðherra. Fullyrðingar um slíkt væru óvirðing við þá dómara sem í hlut áttu.

Þá sagði Björn að ástæðulaust væri að gleyma þvi að Kjartan Ólafsson hefði verið framkvæmdastjóri í flokki sem hafði það að markmiði að ná völdum í landinu með ofbeldi. Sósíalistar og kommúnistar hefðu ekki hikað við að beita valdi til að ná fram málstað sínum. Björn sagði að lögregla hafi átt undir högg að sækja og verið vanbúin og fáliðuð, þannig væri hægt að skýra hleranir. Þá tók Björn jafnframt fram að engin ástæða væri til að ætla að lögregla hefði hlerað síma án dómsúrskurðar.

Björn ítrekaði að hann sæi ekki ástæðu til að ríkisstjórnin bæðist afsökunar á hlerunum. Eðlilegra væri að þeir sem teldu að á sér hefði verið brotið leituðu réttar síns.

Málsvörn Björns vakti misjafnar undirtektir, en Álfheiður Ingadóttir sagði ræðu hans lúalega. Hún sagði kaldastríðsham hafa runnið á dómsmálaráðherra í umræðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×