Innlent

Gunnar Smári átti að verða aðstoðarmaður borgarstjóra

Fjölmiðlamaðurinn Gunnar Smári Egilsson.
Fjölmiðlamaðurinn Gunnar Smári Egilsson.

Ólafur F. Magnússon, fráfarandi borgarstjóri, segir að Gunnar Smári Egilsson hafi upprunalega átt að starfa sem aðstoðarmaður borgarstjóra en ekki eingöngu að yfirfara upplýsingamál borgarinnar eins og áður hefur verið haldið fram.

Hvorki Ólafur F. né Hanna Birna Kristjánsdóttir, verðandi borgarstjóri, vildi þó meina að ráðning Gunnar Smára hafi orðið til þess að meirihluti þeirra sprakk í gær, eins og frægt er orðið. Þetta kom fram í viðtali við þau tvö í Kastljósinu í kvöld.

„Ég hafði áhuga að að leita mér að þessum hæfa fjölmiðlamanni sem aðstoðarmanni en það kom ekki til greina að hálfu Sjálfstæðisflokksins," sagði Ólafur í viðtalinu og bætti við að sjálfstæðismönnum hefði líkað illa að Gunnar hefði aðsetur í Ráðhúsinu.

Hanna Birna sagði að henni hefði ekki hugnast Gunnar Smári sem aðstoðarmaður Ólafs enda hafi ætlunin verið að þau myndu velja sér saman aðstoðarmann. Því hafi það skotið nokkuð skökku við þegar hún hafi mætt til vinnu einn daginn og séð Gunnar Smára vera að koma sér fyrir á skrifstofu aðstoðarmanns borgarstjóra.

Ólafur F. sagði það jafnvel hafa getað bjargað samstarfi F-lista og Sjálfstæðisflokksins hefði hann ráðið sameiginlegan aðstoðarmann fyrir sig og Hönnu Birnu fyrr í sumar.




Tengdar fréttir

Gunnar Smári afþakkar heiðurinn af falli meirihlutans

Gunnar Smári Egilsson segist ekki trúa því að hann sé svo áhrifaríkur að hann hafi stuðlað að falli meirihluta Ólafs F. Magnússonar og sjálfstæðismanna eins og ýjað hefur verið að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×