Lífið

Hitti Stallone á flugvellinum

Magnús Ver hefur leynt og ljóst lagt drög að ferli í Hollywood og leikur í bjórauglýsingu fyrir Coors Light.
Magnús Ver hefur leynt og ljóst lagt drög að ferli í Hollywood og leikur í bjórauglýsingu fyrir Coors Light.

Magnús Ver Magnússon lék nýverið í bandarískri bjórauglýsingu. Hann segir að sér hafi liðið eins og Hollywood-stjörnu meðan á tökunum stóð.

„Þetta er herferð fyrir Coors,“ segir Magnús Ver Magnússon, kraftajötuninn góðkunni sem lék nýlega í bandarískri bjórauglýsingu.

„Coors Light,“ bætir hann við og hlær enda kannski hálf fyndið að maður að þessum vexti skuli leika í auglýsingu fyrir hitaeiningasnauðan öllara. „ Ég er reyndar hrifinn af þessum bjór, hann er ekki of bragðmikill en viðurkenni að ég geri ekki mikið af því að drekka bjór,“ segir Magnús.

Meðal annarra sem taka þátt í þessari herferð Coors er Michael Johnson sem margir íþróttaáhugamenn ættu að kannast við en hann einokaði 200 og 400 metra hlaupin og er margfaldur ólympíuverðlaunahafi í þessum greinum. „Mér leið nú reyndar eins og alvöru Hollywood-stjörnu, flaug út á Saga Class, gisti á fyrsta flokks hóteli og fékk minn eigin húsbíl,“ segir Magnús. „Og það voru í kringum sextíu manns sem störfuðu við gerð auglýsingarinnar,“ bætir hann við. Magnús vildi ekki gefa upp hver launin væru, sagði þó að þau væru rífleg og nægðu fyrir salti í grautinn.

Auglýsingin gengur mikið út á krafta Magnúsar og lyftir hann meðal annars bíl fyrir ofan hausinn á sér, rífur hurð af hjörum og slær mann út af bar fyrir slysni. Gerð auglýsingarinnar tók heilan dag og kom Magnús heim fyrir nokkrum dögum. Hann vissi þó ekki hvenær herferðinni yrði hleypt af stokkunum en gerði ráð fyrir að hann fengi sent eintak þegar auglýsingin hans væri tilbúin til sýningar. Magnús segist ekki hafa gert mikið af því að leika í svona stórum auglýsingum en hann hefur verið tíður gestur þar vestra. Var meðal annars fyrstu Íslendinga til að koma fram í þætti David Letterman.

Og Magnús viðurkennir að leynt og ljóst hafi það alltaf verið draumur um að gera eitthvað í Hollywood. „Er Arnold ekki orðinn alltof gamall?“ segir Magnús í gríni en ljóst má vera að þar liggur meiri alvara að baki. Og að venju þegar fólk heldur til Englaborgarinnar í Kaliforníu er stutt í stórstjörnurnar. „Ég var nú bara á flugvellinum í Kaliforníu og var að ræða málin við eitthvað fólk. Þá kom sjálfur Sly Stallone á röltinu framhjá og kinkaði kolli til mín. Ég veit nú reyndar ekkert hvort hann þekkti mig eða ekki,“ segir Magnús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.