Innlent

Alcan bíður svars frá Landsvirkjun

Væntanlegt svar Landsvirkjunar við ósk Alcan um framlengingu raforkusamnings gæti ráðið miklu um virkjana- og stóriðjuframkvæmdir í landinu á næstu árum og verður þannig prófsteinn á stjóriðjustefnu nýrrar ríkisstjórnar. Forstjóri Alcan vonar að stjórnmálamenn reyni ekki að bregða fæti fyrir áform fyrirtækisins.

Alcan menn vinna rösklega að því tryggja sér endurnýjun raforkusamningsins við Landsvirkjun því þeir mættu í Þorlákshöfn í dag, í annað sinn á fáum dögum, á fund hjá sveitarfélaginu Ölfusi. Samningurinn rennur út á laugardag og Alcan-menn vita sem er að forsenda þess að Landsvirkjun fallist á framlengingu hans er sú að þeir geti fyrir helgi kynnt raunhæfa áætlun um nýta þá raforku sem í boði er, væntanlega annaðhvort með því að reisa nýtt álveri í Þorlákshöfn eða á Keilisnesi.

Alcan áformar einnig samskonar fund á næstu dögum með ráðamönnum Voga vegna Keilisness. En ekki er víst að það dugi Alcan að sannfæra bara Landsvirkjun. Ríkið á Landsvirkjun og þótt Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra fari nú með eigendavaldið má telja líklegt að nýr flokkur í ríkisstjórn, Samfylkingin, vilji hafa eitthvað um það að segja hvernig Landsvirkjun svarar Alcan. Svarið gæti nefnilega ráðið miklu um það hvort ráðist verði smíði þriggja virkjana í Þjórsá á næstu árum og hvort nýtt álver rísi í Þorlákshöfn eða á Keilisnesi eða hvort stækkað verði á uppfyllingu í Straumsvík.

Það var á fundi með Landsvirkjun í síðustu viku sem Alcan fór þess á leit að raforkusamningurinn yrði framlengdur. Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði í dag að beðið væri eftir bréfi frá Alcan með þeirri ósk og þegar það bærist hæfust væntanlega viðræður við fyrirtækið. Taldi Friðrik líklegt að aðilar myndu ræðast við fyrir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×