Innlent

Alvarlegum umferðarslysum fjölgar um 60 prósent milli ára

MYND/Stöð 2

Alvarlegum umferðarslysum fjölgaði um 60 prósent á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2007 miðað við sama tímabil á síðasta ári. Þetta sýna tölur Umferðarstofu. Alls slösuðust 52 alvarlega í 48 slysum á fyrstu fjórum mánuðum ársins en í fyrra voru þeir 33 í 30 slysum.

Í tilkynningu frá Umferðarstofu segir að það eina sem teljist jákvætt við slysaþróunina sé að banaslys eru færri í ár en á árinu 2006. Tveir hafa látist í umferðinni í ár en fimm höfðu látist á sama tímabili í fyrra. Bent er á að slysum þar sem fólk verður fyrir minniháttar meiðslum hafi líka fjölgað, eða um tæplega 40 prósent og slösuðum um 35 prósent.

„Núna fer mesti umferðartími ársins í hönd og á undanförnum árum hafa flest alvarleg umferðarslys orðið í júlí og ágúst. Þess vegna er ástæða til að allir leggi sig fram til að stöðva þá óheillaþróun sem orðið hefur í þessum efnum. Það gerist fyrst og fremst með því að virða hraðareglur og að forðast akstur undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna. Til að skapa öruggari umferð verður lögregla mjög virk í eftirliti og leggur þar áherslu á hraðann og baráttuna gegn ölvunarakstri," segir í tilkynningu Umferðarstofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×