Innlent

Varar við ótímabærum þungunum

Þekkt að pillan auki hættu á blóðtappa.
Þekkt að pillan auki hættu á blóðtappa. MYND/Hari

Fjölmiðlaumfjöllun um hættu á blótappa samfara töku Yasmin getnaðarvarnartaflna getur aukið hættuna á ótímabærri þungun. Þetta kemur fram í frétt frá landlæknisembættinu. Aðstoðarlandlæknir varar við því að konur hætti að taka pilluna án þess að leita ráða hjá læknum fyrst.

Í fréttinni kemur fram að það sé þekkt að Yasmin og aðrar samsettar getnaðarvarnarpillur auki hættu á blóðtappa. Þá sé það einnig þekkt að notkun pillunar auki hættu á krabbameini í leghálsi og brjóstum enda þótt það sé umdeilt.

Kristján Oddsson, aðstoðarlandlæknir, bendir hins vegar á í fréttinni að áhættan sé almennt lítil og segir að ef 10 þúsund konur taki getnaðarvarnarpillu í heilt ár mætti búast við fjórum tilfellum blóðtappa. Þá segir hann ennfremur að pillan hafi ýmsa kosti. Hún veiti til að mynda góða vörn gegn getnaði og minnki líkur á krabbameini í eggjastokkum.

Þá varar aðstoðarlandlæknir við því að konur hætti að taka pilluna í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar. Hann segir fréttir af hættu á blóðtappa vegna töku pillunar koma fram hér á landi og erlendis af og til. Mikilvægt sé að konur leiti ráða hjá lækni áður en þær hætta að taka pilluna til að komast hjá ótímabærri þungun.

Sjá frétt landlæknisembættisins hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×