Lífið

Þátttakendur í X-Factor vekja athygli

Keppnin harðnar í X-Factor
Keppnin harðnar í X-Factor

Úrslitakeppnin er komið á fulla ferð og má með sanni segja að X-Factor-æðið sé hafið fyrir alvöru. Það kom mörgum á óvart þegar systkinin Hans Júlíus og Ásdís Rósa Þórðarbörn, sem skipa dúettinn Já, féllu úr keppni í síðasta þætti, sérstaklega í ljósi þess að dómararnir höfði verið á einu máli um og haft sérstaklega á orði í fyrsta þættinum hversu miklir listamenn þau væru og að þau hefðu þá staðið sig einna best af öllum. En af því má draga þann lærdóm að fyrri frammistaða skiptir litlu þegar á hólminn er komið, auk þess sem öllu máli skiptir fyrir áhorfendur að vera virkir og taka þátt í símakosningunni ef þeir vilja hafa bein áhrif á úrslitin og framvinduna í X-Factor.

Í samkeppninni milli dómaranna er staðan sú að Ellý og Palli hafa nú bæði misst eitt atriði úr sínum hópum og aðeins Einar stendur eftir með öll sín atriði. Tæpt var það þó því Alan lenti meðal tveggja neðstu atriðanna í síðasta þætti og þurfti á liðsinni Ellýjar að halda - sem valdi að gefa honum annað tækifæri, framyfir dúettinn Já. Pressan er því mikil á hinum geðþekka bandaríska söngvara sem búsettur hefur verið á Íslandi í þrjú ár, að standa sig og endurgjalda Ellý traustið sem hún og Einar bera til hans, ein Einar fullyrti að þar færi hæfileikamaður á heimsmælikvarða.

Og sumir keppendur hafa reyndar nú þegar náð athygli víðar en hér á landi. Í vikunni komst það í fréttir að Jógvan hinn færeyski sé að slá rækilega í gegn í heimalandinu og að þar sé farið af stað einskonar Jógvan-æði, í líkingu við Magna-æðið, jafnvel þótt þættirnir séu ekki í sýningum í færeysku sjónvarpi. Færeyingar fylgjast að sögn grannt með gengi síns manns og verður spennandi að sjá hvar sá áhugi endar ef Jógvan kemst lengra og jafnvel alla leið í keppninni ... Hægt og bítandi spyrst það svo út til heimalanda hinna "útlendinganna" í keppninni, Johonnu hinnar sænsku, og Alans hins bandaríska, að landi þeirra sé að brillera í íslenska X-Factornum og verður þá spennandi að fylgjast með hvernig því verður gerð skil í þarlendum fjölmiðlum.

Eitt atriði fellur úr keppni í hverjum þætti, allt þar til yfir líkur að eitt stendur eftir sem sigurvegari keppninnar; sá flytjandi sem talinn hefur x-faktorinn eftirsótta.

Það sem keppendur þurfa að gera er að syngja sig inn í hjörtu þjóðarinnar, því það er á valdi sjónvarpsáhorfenda að velja þá sem best stóðu sig, með því að greiða þeim atkvæði í símakosningu. Þeir tveir keppendur sem fæst atkvæði fá í símakosningunni þurfa svo að syngja aftur í þættinum til að bjarga lífi sínu og sannfæra dómarana um að þeir eigi skilið að halda áfram. Það kemur því í hlut dómaranna að skera úr um að endanum hver fer heim hverju sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.