Innlent

Guðjón Valur markahæstur á HM

Guðjón Valur á fleygiferð gegn Frökkum á heimsmeistaramótinu.
Guðjón Valur á fleygiferð gegn Frökkum á heimsmeistaramótinu. MYND/AP

Guðjón Valur Sigurðsson varð markakóngur heimsmeistaramótsins í handknattleik í Þýskalandi með 66 mörk. Þetta var ljóst eftir að keppninni lauk í dag. Fimm Íslendingar eru í hópi tólf markahæstu manna á heimsmeistaramótinu.

Guðjón Valur skoraði níu mörkum meira en næsti maður, Tékkinn Filip Jicha, en þess má geta að aðeins eitt marka Guðjóns kom úr vítakasti. Þá var skotnýting hans 71 prósent samkvæmt tölfræði mótshaldara.

Ólafur Stefánssson og Snorri Steinn Guðjónsson eru ásamt Króatanum Ivano Balic í fimmta sæti yfir markahæstu menn en þeir skoruðu allir 53 mörk. Þá eru Logi Geirsson og Alexandar Petterson í tíunda sæti ásamt Suður-Kóreumanninum Chi-Hyo Cho með 48 mörk.

Þá bar Ólafur Stefánsson höfuð og herðar yfir aðra menn þegar kom að stoðsendingum en hann átti 53 sendingar á félaga sína sem skiluðu marki. Næstur á eftir honum kom Króatinn Ivano Balic með 44 stoðsendingar. Þá varð Logi Geirsson fjórði á þeim lista með 33 stoðsendingar.

Þegar mörk og stoðsendingar eru lagðar saman kemur í ljós að Ólafur Stefánsson er þar einnig yfirburðamaður með samtals 106 sendingar og mörk, Ivano Balic annar með 97 og Logi Geirsson og Guðjón Valur Sigurðsson í 4. og 5. sæti með 81 og 79 sendingar og mörk.

Guðjón er jafnframt í þriðja sæti yfir flesta stolna bolta en hann stal boltanum 13 sinnum af mótherjum sínum, þremur skiptum færra en Þjóðverjinn Christian Zeitz.

Þótt Íslendingar hafi oft spilað betri vörn en á þessu móti er Sigfús Sigurðsson í áttunda sæti yfir flest varin skot í vörn en hann stöðvaði boltann 13 sinnum. Það er fimm skiptum færra en Frakkinn Didier Dinart og Þjóðverjinn Oliver Roggisch sem urðu efstir á þeim lista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×