Innlent

Hæpin aðferðafræði

Óútskýrður launamunur kynjanna er tíu til tólf prósent samkvæmt einhverri viðamestu launakönnun sem gerð hefur verið hér landi. Það er um þriðjungi minni launamunur en síðasta stóra könnun sýndi. Dósent í kynjafræði dregur aðferðafræðina í efa.

Það var Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem gerði rannsóknina í samvinnu við ParX viðskiptaráðgjöf og Samtök atvinnulífsins. Könnunin náði til rösklega 6300 starfsmanna í hundrað og tveimur fyrirtækjum og notast er við raunverulegar upplýsingar beint úr launabókhaldi fyrirtækjanna. Síðasta stóra könnunin á launamun sýndi tæplega sextán prósenta launamun og hafði hann þá ekkert minnkað í röskan áratug. Þessi könnun hins vegar sýnir að óútskýrður launamunur er tíu til tólf prósent.

Þorgerður Einarsdóttir, dósent í kynjafræði er ekki sannfærð um að launamunur hafi minnkað. Þorgerður segir að helstu sérfræðingar Evrópusambandsins í launamun mæli með því að ekki séu notaðar fleiri en sex til tólf flokkar af breytum. Þær séu hins vegar allt að 44 í þessari könnun. Séu þær notaðar á ógagnrýninn hátt geti þær hulið meira en þær skýra. Könnunin sýnir jafnframt að launamunur karla og kvenna er lítill við 24 ára aldur og vaxa launin álíka mikið fram á miðjan fertugsaldur en þá sígur á ógæfuhliðina hjá kvenkyninu og launamunur eykst verulega.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×