Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í dag karlmann af því að hafa verið ölvaður undir stýri vegna annmarka á vinnubrögðum lögreglu.
Atvikið átti sér stað í mars síðastliðnum en þá barst lögreglunni á Selfossi tilkynning í gegnum síma um að bifreið hefði verið ekið út af veginum á Hellisheiði og sagði vitnið að ökumaðurinn virtist ölvaður. Þegar lögregla kom á vettvang sat hins vegar maður í farþegasætinu frammi í bílnum.
Þegar hann var spurður að því hvort hann hefði verið ökumaður bifreiðarinnar neitaði maðurinn því og sagði kunningja sinn hafa verið við stýrið en hann hefði húkkað sér far í bæinn. Kvaðst hann ekki vilja koma vini sínum í vandræði og neitaði að segja til hans.
Þegar maðurinn var spurður um lyklana að bílnum sagði hann kunningjann hafa farið með þá í bæinn. Það reyndist hins vegar ekki rétt því þeir fundust á gólfinu framan við hægra framsæti. Þá voru nokkrar bjórdósir, bæði fullar og tómar á gólfi bílsins.
Fyrir dómi neitaði maðurinn að hafa ekið umrætt sinn en sagði bróður sinn hafa ekið. Vegna hálku og ófærðar hefði hann síðan misst stjórn á bifreiðinni og hún farið út af á Hellisheiðinni. Hefði bróðirinn svo húkkað sér far til Reykjavíkur til að ná í aðra bifreið til að sækja hann.
Bróðir mannsins sem ákærður var kom einnig fyrir dóminn og sagðist hafa verið við stýrið umrætt sinn. Dómurinn komst að því að margt væri ótrúverðugt í framburði hans og sama mætti segja um hinn ákærða.
Lögregla hafði samband við þann sem tilkynnti um atvikið og hafði sá lýst útliti ökumannsins sem samsvaraði útliti hins ákærða. Þetta staðfesti lögreglumaður fyrir dómi. Þetta vitni var hins vegar ekki leitt fyrir dóminn. Þá var ekki tekin formleg skýrsla af því.
Að þessu virtu komst héraðsdómur að því ekki væri hægt að byggja á símtali lögreglunnar við umrætt vitni til þess að sakfella manninn fyrir ölvunarakstur. Þótt framburður ákærða og bróður hans þætti ótrúverðugur væri slíkur vafi í málinu að ekki væri hjá því komist að sýkna manninn af ákæru um ölvunarakstur.