Innlent

Þrjár líkamsárásir í miðbænum í nótt

Talsverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í miðbænum í nótt vegna ölvunar. Klukkan hálf þrjú í nótt lentu menn undir tvítugu í átökum á Laugaveginum þar sem annar dró upp hníf og tveir sem hugðust skakka leikinn fengu skurð á hendi. Sá með hnífinn gisti fangageymslur í nótt en hinir voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar.

Þá lentu tveir menn á þrítugsaldri í átökum í Ingólfsstræti um fjögur leytið í nótt og beit annar þeirra hinn í nefið og hlaust talsvert sár af. Báðir voru fluttir á slysadeild með mikla áverka eftir átökin. Lögreglan hafði þá afskipti af slagsmálum í Bankastræti um sex leytið í morgun þar sem einn karlmaður sló annan með bjórflösku í andlitið. Sá var fluttur á slysadeild með töluverða áverka. Þá voru sjö teknir í nótt fyrir að aka undir áhrifum áfengis og fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×