Innlent

Meistarinn rukkaður fyrir rausnarskapinn

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Vann 5 milljónir króna í Meistaranum.
Vann 5 milljónir króna í Meistaranum. MYND/ÁT

Jónas Örn Helgason, fyrsti sigurvegari spurningakeppninnar „Meistarinn" á Stöð 2, vakti athygli eftir keppnina þegar hann ákvað að gefa hluta verðlaunaupphæðarinnar til góðgerðamála. Hann afhenti Hjálparstarfi kirkjunnar og Rauða krossi Íslands 500 þúsund króna framlag til hjálparstarfs samtakanna á Indlandi og í Afríku. Það kom Jónasi hins vegar á óvart nú um mánaðarmótin að Skattstjórinn í Reykjavík innheimtir 200 þúsund krónur í skatt af gjöf Jónasar.

Faðir Jónasar, Helgi Árnason, sagði í samtali við Vísi að í bréfi frá skattstjóranum komi fram að lagaheimild skorti til „fjárdráttar frá styrkjum og starfstengdum greiðslum," eins og það er orðað í bréfinu. Ef Jónas hefði haft rekstur með höndum hefði hann hins vegar haft fullan rétt á því að draga upphæðina frá skatti.

„Jónas Örn á því enga undankomuleið með að borga um 40 prósent skatt af gjöfinni," segir Helgi. Hann segir ennfremur að Jónas hafi velt því fyrir sér í fullri alvöru á sínum tíma að gefa allt verðlaunaféð til hjálparstarfs, alls fimm milljónir króna. Hann hefði því líklega orðið að gjalda fyrir þann rausnarskap með því að borga tvær milljónir til ríkissjóðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×