Innlent

Aflaheimildir í þorski 130 þúsund tonn

Ríkisstjórnin kynnti í morgun tillögur sínar um aflaheimildir í þorski fyrir næsta fiskveiðiár. Samkvæmt þeim verður þorskvótinn 130 þúsund tonn. Er þetta í fullu samræmi við tillögur Hafrannsóknarstofnunar og lægsti þorskvóti frá upphafi. Mótvægisaðgerðir gera ráð fyrir aðstoð við byggðarlög.

Hafrannsóknarstofnun lagði til að aflaheimild í þorski yrði lækkuð um 63 þúsund tonn, úr 193 þúsund tonnum í 130 þúsund tonn. Landssamband útvegsmanna vildi að veidd yrðu 155 til 160 þúsund tonn af þorski á næsta fiskveiðiári. Aflaverðmæti þorsks dregst saman um rúma níu milljarða króna, útflutningsverðmæti um 16 milljarða og verg landsframleiðsla um 0,8%.

Einnig hefur verið ákveðið að á fiskveiðiárinu 2008-2009 miðist leyfilegur þorskafli við 20% afla úr viðmiðunarstofni þó þannig að tekið verði tillit til sveiflujöfnunar samkvæmt aflareglu fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Leyfilegur heildarafli í þorski verði þó ekki undir 130 þús. tonnum á því fiskveiðiári.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, sagði á blaðamannafundinum að markmiðið með ákvörðuninni væri að stuðla að uppbyggingu þorsksstofnsins sem muni síðan leiða til þess að hægt verður að hækka aflamarkið á komandi árum.

Í fréttatilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins segir, að meginniðurstöður Hafrannsóknastofnunarinnar séu þær að stærð veiðistofnsins sé nú nálægt sögulegu lágmarki og stærð hrygningarstofnsins aðeins helmingur þess sem talið er að gefi hámarksafrakstur.

"Nýliðun síðustu 6 árin hefur verið slök og meðalþyngd allra aldurshópa er í sögulegu lágmarki. Því telur stofnunin mikilvægt að veiðihlutfallið verði nú þegar lækkað og að aflamark á komandi árum miðist við 20% af viðmiðunarstofni í stað 25% eins og verið hefur. Vegna bágs ástands uppvaxandi árganga er lagt til að ekki verði að þessu sinni tekið tillit til aflamarks yfirstandandi fiskveiðiárs og að afli næsta fiskveiðiárs verði takmarkaður við 130 þús. tonn," segir í tilkynningunni.

Þá hefur sjávarútvegsráðherra falið Hafrannsóknastofnuninni að gera tillögur um hvernig efla megi rannsóknir og aðgerðir til uppbyggingar þorskstofninum.

Eftirfarandi breytingar eru líka fyrirhugaðar á fiskveiðistjórnuninni:

Að setja á laggirnar starfshóp með það markmið að efla tengsl og upplýsingastreymi á milli allra sem starfa við rannsóknir á þorski og til að auka skilning á þáttum sem hafa áhrif á nýliðun stofnsins. Hlutverk starfshópsins verður einnig að benda á hvaða rannsóknir skortir á stofninum og að móta framtíðarrannsóknir til að efla þekkingu og auka skilning á þáttum sem hafa áhrif á nýliðun og viðkomu þorsks. Nefndin mun starfa undir forystu Guðrúnar Marteinsdóttur prófessors í fiskifræði við Háskóla Íslands en einnig munu sitja í hópnum fultrúar Hafrannsóknastofnunarinnar og Háskólans á Akureyri.

Samkeppnisdeild Verkefnasjóðs sjávarútvegsins verði efld til þess að auka fjölbreytni hafrannsókna og stuðla að auknu fjármagni til þeirra.

Endurskoðaðar verði reglur um framsal aflamarks og aflahlutdeildar, veiðiskyldu, byggðakvóta og um forkaupsrétt á aflaheimildum.

Nefnd fulltrúa allra þingflokka verði falið að kanna hver reynslan af aflamarkskerfinu hefur verið, eins og kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Skoðað verði hvernig unnt sé að láta skerðingu aflaheimilda vegna byggðakvóta, línuívilnunar og sérstakra bóta miðast við heildarþorskígildisfjölda einstakra skipa, þannig að skerðingin dreifist á fiskiskipaflotann miðað við heildarúthlutun aflaheimilda en bitni ekki að mestu á þeim útgerðum sem hafa hlutfallslega hæstar heimildir í þorski.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á fundinum einboðið að ákvörðunin muni bitna misjafnlega þungt á landsvæðum. Hann sagði að ríkisstjórnin myndi bregðast við þeim vanda sem upp kann að koma í kjölfar ákvörðunarinnar.

Þá kom fram í máli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, þetta hafi verið erfið ákvörðun fyrir sjávarútvegsráðherra. Hins vegar sé ríkisstjórnin þeirrar skoðunar að ákvörðunin sé rétt þó hún sé ekki sársaukalaus fyrir einstaklinga, fyrirtæki og byggðarlög í landinu. Hún ítrekaði að um skammtímaákvörðun væri að ræða og að ríkisstjórnin myndi hrinda af stað mótvægisaðgerðum til að aðstoða þau byggðarlög sem verða fyrir tjóni vegna hennar.

Sjá nánar tilkynningu sjávarútvegsráðherra hér að neðan og reglugerð um leyfilegan heildarafla.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×