Innlent

Sjávarbyggðir sérstaklega styrktar

Ríkisstjórnin ætlar að styrkja sjávarbyggðir sérstaklega vegna yfirvofandi niðurskurðar í þorskveiðum á næsta ári. Formenn stjórnarflokkanna eru sammála um að verulega þurfi að draga úr veiðunum.

Búist var við því að sjávarútvegsráðherra myndi tilkynna um skerðingu þorskvóta næsta fiskveiðiárið á fundi ríkisstjórnar í morgun en svo fór þó ekki. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundaði um málið í gær og þingflokkur Samfylkingarinnar í morgun.

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun voru málin svo rædd en sjávarútvegsráðherra hefur boðað opinberlega að mikill niðurskurður verði í heimildum til þorskveiða á næsta fiskveiðiári sem hefst í september. Hafrannsóknarstofnun hefur lagt til að aðeins verði heimilað að veiða 130 þúsund tonn í stað um 190 þúsund tonna á þessu fiskveiðiári. Ríkisstjórnin skoðar nú mótvægisaðgerðir sem gripið verður til samhliða skerðingu þorskkvóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×