Innlent

Landsvirkjun gefur Alcan frest

Landsvirkjun mun ekki hefja samningaviðræður við aðra um örkusölu til stóriðju fyrr en erindi Alcan um framlengingu forgangs að orku hefur verið afgreitt. Þó að þessi forgangur rennur úr gildi um helgina ætlar Landsvirkjun að taka sér einhverjar vikur í að afgreiða erindi Alcan.

Alcan hefur farið formlega fram á það að fá framlengingu á forgangi að orku frá Landsvirkjun en um helgina rennur úr gildi viljayfirlýsing þar um. Landsvirkjun liggur ekkert á að svara erindinu og gefur það Alcan ákveðið svigrúm til þess að ýta úr vör raunhæfum ferli til að auka sína framleiðslugetu, hvort það er með nýju álveri í Þorlákshöfn, Keilisnesi eða stækkun á uppfyllingu í Straumsvík. Alcan fær svar eftir tvær til þrjár vikur.

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar segir að það verði ekki farið í orkusöluviðræður við aðra fyrr en erindi Alcan hefur verið afgreidd.

Það er greinilegt að Landsvirkjun telur sig vera í óskastöðu enda margir áhugasamir orkukaupendur að banka uppá. Meðal annars hefur Norsk Hydro minnt á sig í því sambandi. Ljóst er að klukkan tifar á Alcan því Landsvirkjun mun vilja fá skýrt á borðið að raunhæfur kostur sé í sjónmáli áður en það er gengið til bindinga um orkusölu. Landsvirkjun hefur slæma reynslu af því að bíða eins og mey í festum og var það Norsk Hydro sem þá hélt meynni volgri en hætti svo við allt saman. Nú er staðan önnur og svo mikill áhugi á straumi Landsvirkjunnar að fyrirtækið er nú í þeim stellingum að vera sætasta stelpan á ballinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×