Innlent

Vatni hleypt úr Hálslóni öðru hverju í sumar

MYND/Hörður Sveinsson

Ætlunin er að hleypa vatni úr Hálslóni öðru hverju í sumar að sögn Sigurðar Arnalds, upplýsingarfullrúa Landsvirkjunar, en eins og fram kom í fréttum fyrr í dag verður það gert á þriðjudag.

Sigurður segir að opnað verði fyrir vatnið í gegnum botnrásir í Kárahnjúkastíflunni en önnur hjáveituganganna sem notuð voru til að leiða Jökulsá á Dal fram hjá stíflunni við byggingu gegna hlutverki botnrásar.

Sigurður segir þetta gert til þess að stýra hraðanum á fyllingu Hálslóns en lónið hefur fyllst hraðar en æskilegt þykir að undanförnu. Segir Sigurður það hafa gerst vegna hlýinda í vetur en aðeins vantar 30 metra upp á að lónið nái endanlegri hæð sinni. Það á hins vegar ekki að fyllast fyrr en í haust að forskrift hönnuða stíflunnar.

Sigurður segir íbúa við Jöklu verða látna vita þegar vatni verður hleypt úr Hálslóni, meðal annars með SMS-sendingum, en engin hætta eigi að vera á ferðum. Verkinu verði hagað á þann hátt að ekki komi mikið flóð og þá verði rennslið í ánni miklu minna en venjulegt sumarrennsli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×