Innlent

Reyndi að ræna matvöruverslun vegna ótta við handrukkara

MYND/GVA

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem grunaður er um að hafa reynt að ræna peningum úr verslun 10/11 við Dalveg í Kópavogi á fimmtudaginn var.

Fram kemur í gæsluvarðhaldskröfunni að maðurinn hafi komið inn í búðina með lambhúshettu og otað hnífi að afgreiðslustúlku. Þau hafi farið inn á skrifstofu þar sem maðurinn reyndi að opna peningaskáp en styggð kom að honum þegar viðvörunarbjöllur í búðinni fóru í gang.

Maðurinn var handtekinn samdægurs og viðurkenndi við yfirheyrslur að hafa reynt að ræna verslunina. Hann bar því við að honum vantaði fé til að greiða handrukkurum en honum og fjölskyldu hans hefði ítrekað verið hótað líkamsmeiðingum nýverið.

Maðurinn hefur hlotið tvo dóma áður en brot hans nú geta varðað allt að 10 eða 16 ára fangelsi. Í ljósi almannahagsmuna fór lögreglustjóri fram á gæsluvarðhald til 3. ágúst en héraðsdómur hafnaði því. Þeim úrskurði sneri Hæstiréttur við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×