Innlent

Þúsundir fylgdust með Rosberg í Smáralind

Með Ungrú Ísland í annari og afmælistertu í hinni. Rosberg sæll í sinni við Smáralind.
Með Ungrú Ísland í annari og afmælistertu í hinni. Rosberg sæll í sinni við Smáralind.
Á sjötta þúsund manns horfðu á Nico Rosberg, formúluökumann hjá Williams liðinu, aka formúlubíl sínum í blíðskaparveðri við Smáralind í dag. Mikil öryggisgæsla var á staðnum til að tryggja öryggi áhorfenda enda náði bíllinn allt að 160 km hraða á tímabili, að því er segir í tilkynningu frá Hagkaup og Baugi Group sem standa að komu Rosbergs til landsins.

„Í morgun heimsótti Rosberg Rjóðrið, hvíldarheimili fyrir langveik börn, þar sem hann spjallaði við börnin og færði þeim gjafir fyrir hönd Hagkaupa," segir í tilkynningunni. „Eftir fyrri aksturinn afhenti Rosberg Katrínu Björgu Guðbrandsdóttur, vinninghafa í Hagkaupsleiknum, ferð fyrir tvo á Silverstone kappaksturinn þann 8.júlí og í tilefni af 22 ára afmæli Rosbergs á morgun, miðvikudag, færði Ungfrú Ísland, Jóhanna Vala Jónasdóttir, honum forláta afmælistertu.“

Rosberg ók bíl sínum tvisvar um brautina og ók um fimm hringi í hvert sinn en að auki lék hann listir sínar inni á stæðinu svo rauk úr dekkjunum. „Þarna gafst áhorfendum tækifæri til að upplifa steminguna sem að myndast á formúlukeppnum en heyra mátti í bílnum langar leiðir. Mikill öryggisviðbúnaður var á staðnum en 20 manna lið kom með bílnum til að gera bílinn ökuhæfan."

Rosberg sagðist hafa skemmt sér vel á sýningunni „Veðrið var frábært og stemningin góð,“ sagði ökuþórinn sem stóð einnig í ströngu við að veita fjölda eiginhandaráritana til aðdáenda af öllum aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×