Innlent

Vilja að virkjun í Hverfisfljóti fari í umhverfismat

Landvernd hefur sent umhverfisráðherra bréf þar sem farið er fram á að ráðherra ógildi úrskurð Skipulagsstofnunar varðandi virkjun í Hverfisfljóti í Hnútu í Skaftárhreppi. Stofnunin komst að því að þessi 2,5 megavatta virkjun þyrfti ekki að fara í umhverfismat.

Landvernd segir í bréfi sínu til ráðherra að margt bendi til þess að virkjunin, vegagerð og efnistaka henni tengd myndi hafa í för með sér veruleg umhverfisáhrif og líklega mun meiri en réttlætanlegt getur talist fyrir þá örlitlu orku sem um er að ræða.

Hverfisfljót sé óvirkjað og horfa beri til þess að jökulám sem renna óheftar og óvirkjaðar í farvegi sínum til sjávar fer fækkandi á Íslandi. Þá liggi hönnun og staðsetning mannvirkja ekki fyrir og þar með sé ljóst að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga hafi ekki verið fullnægt af hálfu Skipulagsstofnunar. Sú staðreynd ein og sér leiði til þess að umhverfisráðherra beri að ógilda ákvörðunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×