Innlent

Sex Litháar í haldi lögreglu grunaðir um árás á samlanda sinn

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Litháískur karlmaður á fertugsaldri liggur á gjörgæsludeild eftir átök á heimili hans í Bökkunum í Breiðholti í nótt. Hann höfuðkúpubrotnaði þegar hann var sleginn með barefli. Sex litháískir karlmenn eru í haldi lögreglunnar vegna málsins.

Maðurinn gekkst undir aðgerð í dag og er haldið sofandi í öndunarvél. Annar karlmaður var einnig fluttur á slysadeild eftir átökin en hann var stunginn í bakið. Meiðsl hans reyndust þó ekki alvarleg og var hann útskrifaður í dag.

Lögreglu barst tilkynning um árásina rétt fyrir klukkan fjögur í nótt. Maðurinn býr í íbúð í Hjaltabakkanum í Breiðholtinu og hafði samkvæmi verið þar um nóttina. Lögregla handtók sex menn eftir ábendingar frá gestum samkvæmisins. Þeir höfðu þá yfirgefið vettvanginn en vitni gátu bent á hvar hægt væri að finna þá.

Bæði fórnarlömbin og árásarmennirnir eru Lithár sem búsettir eru hér á landi. Lögreglan hefur yfirheyrt þá í allan dag með aðstoð túlks. Jafnframt hafa verið teknar skýrslur af fjölda vitna og karlmanninum sem stunginn var í bakið.

Ekki er vitað um ástæður árásarinnar. Lögreglan útilokar ekki að fleiri eigi hlut að máli en þeir sex sem nú þegar eru í haldi lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×