Innlent

Alcan velur nýjan stað fyrir álver fyrir áramót

Forstjóri Alcan segir fyrirtækið ætla að finna nýjan stað undir álver á Íslandi fyrir áramót og vonast til að fá svigrúm til að taka ákvörðun um framtíðarstarfsemi hérlendis. Hann segir að jafnframt verði reynt að tryggja að unnt verði að reka álverið í Straumsvík næstu tuttugu ár. Forstjórinn segir að bæjarstjórinn í Hafnarfirði hafi haft frumkvæði að því að bjóða upp á stækkun á landfyllingu í Straumsvík.

Næst æðsti yfirmaður Alcan á heimsvísu, Michel Jacques, hefur verið hér á landi undanfarna daga en hann ræddi við fréttamenn á skrifstofu fyrirtækisins í Straumsvík nú síðdegis. Hann segist hafa farið á fund með bæjarstjóranum í Hafnarfirði með þau skilaboð að hann sæi ekki framtíðina í Straumsvík en fengið þá óvænt útspil þegar bæjarstjórinn kynnti hugmynd um landfyllingu.

Hann segir bæði Þorlákshöfn og Keilisnes koma til greina fyrir nýtt álver en einnig aðra staði á Íslandi. Hann segir fyrirtækið þurfa meiri tíma til að endurmeta stöðuna og vonast til að fá það svigrúm. Umhverfismat og annar undirbúningur fyrir nýtt álver þýði seinkun á verkefninu. Alcan-menn ætla þó að vinna hratt og vonast til að framleiðsla í nýju álveri á nýjum stað geti hafist innan fimm ára, síðla árs 2011 eða árið 2012. Han n segist alls ekki vilja fara með starfsemina frá Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×