Innlent

Óska eftir upplýsingum um samskipti Hafnarfjarðarbæjar við Alcan

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstri-grænna í Hafnarfirði, lagði fram fyrirspurn á fundi bæjarráðs í morgun þar sem óskað er eftir upplýsingum um samskipti bæjarstjóra Hafnarfjarðar, annarra kjörinna fulltrúa Hafnarfjarðar og starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar við Alcan í Straumsvík vegna fréttaflutnings af athugunum ráðafólks Alcan Primary Metal Group á mögulegri stækkun Alcan í Straumsvík á landfyllingu.

Vinstri-grænir óska eftir þvi að þeir verði upplýstir hvort fulltrúar af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hafi komið að athugunum á mögulegri stækkun Alcan í Straumsvík eftir 31. mars 2007. Ef svo sé, með hvaða hætti sú aðkoma hafi verið. Þá vilja Vinstri-grænir vita hvort fulltrúar af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hafi fundað með fulltrúum ríkisstjórnarinnar vegna fyrirætlana Alcan um stækkun fyrirtækisins eftir 31. mars 2007. Þeir vilja einnig vita hvort leitað hafi verið eftir stefnu eða afstöðu ríkisstjórnarinnar hvað mögulega stækkun á landfyllingu varði.

Þá létu Vinstri grænir einnig bóka að þeir furði sig á framgöngu bæjarstjóra hvað varði þreifingar Alcan í Straumsvík um möguleika á stækkun fyrirtækisins á landfyllingu út frá núverandi lóð fyrirtækisins. Hafnfirðingar og fyrirtækið hafi tekið þátt í íbúakosningu um stækkun fyrirtækisins. Inngangsorð og spurning kjörseðilsins hafi verið þannig að ljóst sé að Hafnfirðingar hafi verið að greiða atkvæði um stækkun fyrirtækisins, ekki aðeins um afmarkaða deiliskipulagstillögu eins og bæjarstjóri hafi haldið fram í fjölmiðlum eftir 31. mars 2007. Samþykkt hafi verið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að niðurstöður íbúakosningarinnar skyldi vera bindandi fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Það sé því furðulegt að bæjarstjóri skuli ítrekað leita leiða fyrir Hafnarfjarðarbæ og Alcan að komast hjá lýðræðislegri niðurstöðu íbúakosningar.

Vinstri-grænir spyrja hvort Hafnfirðingar þurfi að undirbúa sig undir það að fara aftur og aftur að kjörborðinu vegna þessa máls þar til niðurstaðan verði þóknanleg Samfylkinginni í Hafnarfirði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×