Innlent

Undrast yfirlýsingu oddvita meirihluta bæjarstjórnar

Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri á Selfossi.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri á Selfossi.

Forsvarsmenn Miðbæjarfélagsins á Selfossi segja að oddvitar Árborgar hafi verið boðaðir til fundar á morgun.

 

Í tilkynningu frá félaginu segir að það lýsi undrun sinni á yfirlýsingu oddvita meirihluta bæjarstjórnar Árborgar í fjölmiðlum að þeir ætli ekki að mæta til opins fundar um skipulagsmál miðbæjarins á Selfossi vegna formsatriða. Mæti þeir ekki sé það í fyrsta sinn sem slikt gerist á Selfossi að pólitískir forystumenn bæjarstjórnar hunsi íbúafund.

 

„Formaður Miðbæjarfélagsins bauð bæjarstjóra og öllum bæjarfulltrúum til fundarins sl. mánudag 18. júní með tölvupósti og símtölum. Í dag, 20. júní, var arkitektum og höfundum skipulagsins boðið að koma til fundarins með símtali. Einnig fyrrverandi bæjarstjóra Einari Njálssyni.

 

Í auglýsingu um fundinn og dagskrá hans var kynnt tilhögun fundarins. Þar er boðun oddvita Árborgar lýst og undir dagskrárlið 3 er þeim gefið rúm til að skýra sín mál, áherslur meirihluta bæjarstjórnar vegna tillögunnar og hugmyndir að baki henni. Dagskráin sem send var út sýnir að ætlað er rúm til þessa á fundinum vilji þeir allir tjá sig eða einn talsmaður þeirra, bæjarstjóri. Það er þeim í sjálfsvald sett," segir í tilkynningu

 

Þá hvetur Miðbæjarfélagið Ragnheiði Hergeirsdóttur bæjarstjóra og aðra oddvita meirihluta bæjarstjórnar Árborgar að mæta til fundarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×