Innlent

Vilhjálmur landaði fjögurra punda laxi

MYND/Stöð 2

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri krækti í fyrsta laxinn í Elliðaánum þetta sumarið laust fyrir klukkan eitt í dag, skömmu áður en hann hætti veiðum í ánni. Vilhjálmur opnaði Elliðaárnar snemma í morgun og fékk einn urriða klukkan átta.

Hefð er fyrir því borgarstjórinn í Reykjavík opni árnar ásamt forkólfum Orkuveitunnar og höfðu þeir landað nokkrum urriðum í dag áður en borgarstjóri krækti í laxinn sem reyndist fjögurra punda hrygna.

Veiði í Elliðaánum verður opnuð fyrir almenningi nú eftir hádegið og stendur veiðitímabilið til 1. september. Laxveiðin í Elliðaánum síðastliðið sumar var 900 laxar og þar af var 841 fiskur af náttúrulegum stofni Elliðaánna en 59 voru afrakstur seiðasleppinga. Það er nokkru minna en meðaltal áranna 1974-2003 en þá varð hún 1200 laxar samkvæmt heimasíðu Stangaveiðifélags Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×