Innlent

Oddvitar Árborgar ósáttir við Miðbæjarfélagið

Oddvitar meirihlutans í bæjarstjórn Árborgar eru ósáttir við auglýsingu Miðbæjarfélagsins vegna fundar sem félagið stendur að um skipulag á Selfossi. Í auglýsingunni eru oddvitarnir kynntir til leiks sem frummælendur á fundinum. Þeir hafi hins vegar aldrei verið beðnir um að mæta á fundinn og gera því alvarlegar athugasemdir við fyrirkomulag og boðun fundarins og ætla ekki að mæta.

„Á fundinum erum við, oddvitar meirihlutans í Árborg, Ragnheiður Hergeirsdóttir bæjarstjóri, Jón Hjartarson forseti bæjarstjórnar og Þorvaldur Guðmundsson formaður bæjarráðs, kynnt sem frummælendur fundarins," segir í sameiginlegri tilkynningu frá oddvitunum. „Þetta er gert án samráðs við okkur. Fundartími, fundarefni og/eða aðrir frummælendur voru ekki kynntir oddvitum bæjarstjórnar áður en auglýsingin var send út."

Oddvitarnir segja ennfremur afar óeðlilegt og ófaglegt af forsvarsmönnum Miðbæjarfélagsins að kynna tillögu að deiliskipulagi miðbæjarins án þátttöku hönnuða hennar en engum af höfundum tillögunnar hefur verið boðið að taka þátt í fundinum, að þeirra sögn.

„Bæjarstjórn Árborgar hefur unnið faglega að deiliskipulagstillögu miðbæjar Selfoss og hefur meðal annars haldið tvo opna kynningarfundi, nú síðast í byrjun júní. Fundarboðendum hefur verið gerð grein fyrir því að undirrituð verði öll fjarverandi n.k. fimmtudagskvöld og munu því ekki geta mætt til fundarins. Þeim hefur jafnframt verið gerð grein fyrir því að bæjarfulltrúar meirihlutans mæta fúslega til fundar um málefni miðbæjarins sé til hans boðað með eðlilegum fyrirvara og undirbúningi," segja oddvitarnir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×