Innlent

750 manna byggð

Fleiri umsóknir hafa borist í íbúðir á nýja háskólasvæðinu á varnarsvæðinu en til stóð að ráðstafa í haust. Undir lok ágúst mun 750 manna samfélag verða þar til á skömmum tíma og er það væntanlega fordæmalaust dæmi um tilflutninga íslendinga án þess að hamfarir komi til.

Eftir tvo mánuði verður orðin að minnsta kosti 750 manna byggð á gamla varnarsvæðinu þar sem Keilir, nýji háskólinn hefur komið sér fyrir. Ákveðið var að bjóða stúdentum gömlu vistarverur hermannana - ekki bara þeim sem munu sækja Keili heldur einnig stúdentum frá Reykjavík. Boðið verður uppá ókeypis strætóferðir til og frá háskólunum í Reykjavík. Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Keilis segir að eftirspurnin eftir íbúðunum hafi verið miklu meiri en vænst var. Nú þegar séu komnar 330 umsóknir um þær 300 íbúðir sem áformað var að leigja út síðla sumar. Verið sé að skoða hvort hægt sé að fjölga íbúðunum. Frumgreinadeild Keilisskólans verður fyrsti áfangi skólastarfsins og var áformað að taka inn hundrað nemendur. Runólfur segir að umsóknir séu þegar orðnar á annað hundrað - en umsóknarfrestur rennur ekki út fyrr en um mánaðamót.

Hann er afar ánægður með viðtökurnar og áhugann á búsetu á nýja háskólasvæðinu og segir að því marki verði náð í sumar sem að hafi verið stefnt á næsta ári. Það fjölgar í Reykjanesbæ um þessa 750 íbúa á einu bretti. Reiknað er með að 200 börn á grunnskólaaldri verði í samfélaginu nýja. Inná vallarsvæðinu er unnið markvisst að því að öll stoðþjónusta verði til staðar, leikskóli, verslun, kaffihús og svo framvegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×