Innlent

Kanna hvort Keilisnes standi til boða undir álver

Ráðamenn Alcan í Straumsvík hafa fundað með sveitarfélaginu Vogum um hvort Keilisnes standi enn til boða undir álver. Bæjarstjórn hefur í framhaldinu boðað til borgarafundar í Vogum annað kvöld til að heyra sjónarmið íbúanna til málsins.

Ráðamenn Alcan í Straumsvík leita nú að stað til framtíðaruppbyggingar hérlendis eftir að Hafnfirðingar höfnuðu því í íbúakosningu að álverið fengi stærri lóð í Kapelluhrauni. Þeir hafa fundað með ráðamönnum í Þorlákshöfn en einnig með ráðamönnum í Vogum á Vatnsleysuströnd.

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Voga, sagði í samtali við Stöð 2 í morgun að Alcan-menn hefðu komið þangað á fund fyrir rúmri viku og spurst fyrir um það hvort Keilisnes kæmi enn til greina undir álver. Af því tilefni hafi bæjarstjórnin ákveðið að boða til borgarafundar annað kvöld þar sem heyra eigi sjónarmið íbúa til málsins.

Alcan-menn hafa einnig óskað eftir fundi með nýjum iðnaðarráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, en lóðin er á forræði ríkisins sem keypti hana sérstaklega undir álver þegar viðræður stóðu yfir við þrjú álfyrirtæki í Atlantsálhópnum um álver á Keilisnesi fyrir sautján árum.

Sérfróðir menn hafa tjáð Stöð 2 að Keilisnes sé einn skásti kosturinn sem Alcan hefur í stöðunni enda sé lóðin þar þegar skilgreind sem iðnaðarlóð og margvísleg undirbúningsvinna þegar að baki sem þýði að álver gæti risið þar tiltölulega fljótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×