Enski boltinn

Slúðrið á Englandi í dag

Kaup ársins á Englandi á síðustu leiktíð - Framherjinn Dimitar Berbatov hjá Tottenham
Kaup ársins á Englandi á síðustu leiktíð - Framherjinn Dimitar Berbatov hjá Tottenham NordicPhotos/GettyImages

Breska slúðurpressan hefur oft nokkuð fyrir sér í glæfralegri umfjöllun sinni um leikmannamarkaðinn í enska boltanum. Nokkrar af slúðursögum blaðanna í morgun hafa þannig orðið að veruleika nú síðdegis, en þar með er ekki öll sagan sögð.

Daily Mail segir þannig að framherjinn Kanu hjá Portsmouth muni gera tveggja ára samning við Ajax í Hollandi. The Sun segir að Chelsea muni kaupa framherjann Marco Pantelic frá Hertha Berlin fyrir 2,5 milljónir punda. Daily Mirror segir að Manchester United sé að fara að bjóða 10 milljónir punda í framherjann Fabio Quagliarella hjá Sampdoria.

Nokkur blaðanna halda því fram að framherjinn Jermain Defoe verði seldur frá Tottenham í sumar ef hann neitar að skrifa undir nýjan þriggja ára samning sem liggur á borðinu fyrir hann. The Times segir að West Ham sé tilbúið að selja Fulham framherjann Marlon Harewood ef félagið er tilbúið að hækka 3 milljón punda tilboð sitt um 750,000 pund. Þá segir Times að Portsmouth hafi blandað sér í baráttu við Everton og Sunderland um að landa framherjanum David Nugent frá Preston.

Daily Mirror hefur eftir portúgalska miðjumanninum Deco hjá Baracelona að hann sé feginn að David Beckham sé farinn frá erkifjendunum í Real Madrid, því hann sé enn klárlega einn besti leikmaður heims í sinni stöðu. Nokkur blaðanna hafa eftir Jose Mourinho hjá Chelsea að hann hafi engar áhyggjur af því þó keppinautar hans í Manchester United séu að eyða 50 milljónum punda í leikmenn í sumar.

The Sun segir að Roman Abramovich ætli að reyna að bæta liðsandann hjá Chelsea með því að mæta í brúðkaupsveislu fyrirliðans John Terry um helgina, en sagt er að Jose Mourinho verði ekki á meðal boðsgesta. Loks var framherjinn Dimitar Berbatov útnefndur "kaup ársins" af sérstakri rannsóknarnefnd í ensku úrvalsdeildinni þar sem tekið var mið af sérstakri formúlu. Í sömu rannsókn var Andriy Shevchenko dæmdur "lélegustu kaup ársins." - Daily Express greindi frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×