Enski boltinn

Eggert: Spennandi tíðindi í vændum

Eggert virðist ætla að láta til sín taka á leikmannamarkaðnum
Eggert virðist ætla að láta til sín taka á leikmannamarkaðnum NordicPhotos/GettyImages

Eggert Magnússon stjórnarformaður segir að West Ham sé við það að tilkynna spennandi tíðindi í leikmannamálum sínum. Bresku blöðin hafa flest öll skrifað um það í dag að félagið sé við það að landa enska landsliðsframherjanum Darren Bent frá Charlton fyrir um 17 milljónir punda. Sagt er að miðjumaðurinn Hayden Mullins fari til Charlton sem partur af þeim viðskiptum.

"Ég get upplýst það glaður í bragði að okkur gengur vel í að halda þá áætlun okkar að styrkja hópinn í sumar og við vonumst til að geta bráðum sent frá okkur spennandi tilkynningu í þeim efnum. Ég veit að við erum á réttri leið og stuðningsmennirnir eru með sömu háleitu markmið og við í að bæta liðið í framtíðinni," sagði Eggert í samtali við Sky Sports nú síðdegis. Hann segist þó ósáttur við frásagnargleði blaðanna af launagreiðslum West Ham - sem hann segir ýktar.

"Persónulega verð ég stundum gramur þegar ég les um það sem menn halda að menn hafi í laun hjá West Ham - sumar þeirra eru hreinlega rangar. Það er ekki rétt að svara hverri einustu sögu sem kemur í blöðunum þar sem verið er að ræða trúnaðarmál varðandi leikmenn, en ég get sagt að mikið af þessum sögusögnum eru einfaldlega ekki sannar. Það sem skiptir mestu máli er að við erum félag með metnað og eigendur félagsins eru staðráðnir í að koma félaginu í rétta átt," sagði Eggert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×