Innlent

Dæmdir í 30 mánaða fangelsi fyrir fólskulega líkamsárás

Árásin þótti vægðarlaus.
Árásin þótti vægðarlaus. MYND/365

Tveir karlmenn á fertugsaldri voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdir í samanlagt 30 mánaða fangelsi fyrir grófa líkamsárás. Mennirnir réðust á annan mann í ágústmánuði í fyrra og spörkuðu meðal annars í hann liggjandi og lömdu með billjardkjuða í andlitið. Þá var annar maðurinn sviptur ökuleyfi fyrir að hafa ekið bifhjóli á 112 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði var 60 kílómetrar á klukkustund.

Í dómnum kemur fram að árásin hafi verið fólskuleg og einkennst af vægðarleysi og hrottaskap. Fórnarlambið meiddist illa og hlaut meðal annars miklar bólgur og mar víðs vegar um líkamann. Þá kvarnaðist upp úr tönn hægra megin í efri góm.

Var annar maðurinn dæmdur í 18 mánaða fangelsi og sviptur ökuréttindum í 1 mánuð. Auk þess var honum gert að greiða rúmar 500 þúsund krónur í sakarkostnað. Hinn maðurinn fékk 12 mánaða fangelsisdóm og gert að greiða rétt rúmar 400 þúsund krónur í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×