Innlent

Aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna væntanlegur

MYND/AFP

R. Nicholas Burns aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna og náinn samstarfsmaður Condoleezzu Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna mun heimsækja Ísland þann 14. júní í boði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra. Í tilkynningu frá bandaríska sendiráðinu kemur fram að Burns muni taka þátt í viðræðum um öryggis- og varnarmál sem eru hluti af samkomulagi um varnarmál sem íslensk og bandarísk stjórnvöld undirrituðu síðastliðið haust.

„Auk samtala við íslenska ráðamenn um samstarf Íslendinga og Bandaríkjamanna í öryggis- og varnarmálum mun Burns ræða við þá um ástand heimsmálanna," segir ennfremur. Einnig mun hann eiga fund með Geir H. Haarde forsætisráðherra og heilsa upp á Sturlu Böðvarsson forseta Alþingis og skoða Alþingi Íslendinga í hans fylgd.

„Burns hefur undanfarin tvö ár sem aðstoðarutanríkisráðherra verið helsti fulltrúi bandaríska utanríkisráðuneytisins í málum eins og kjarnorkudeilunni við Íran, deilunni um framtíð Kosovo, og í samstarfi Bandaríkjanna og Evrópu í stríðinu gegn hryðjuverkum," segir í tilkynningunni.

Áður en hann var skipaður aðstoðarutanríkisráðherra var hann fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá NATO og sendiherra Bandaríkjanna í Grikklandi frá 1997 til 2001. Hann var einnig hann talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins á árunum 1995 til 1997. Þar áður var hann sérlegur ráðgjafi Bills Clintons og hafði einnig yfirumsjón með málefnum Rússlands, Úkraínu, Tyrklands og Kákasusríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×