Innlent

Háreysti og sóðaskapur fylgifiskur reykingabanns

Útköllum lögreglu vegna ónæðis og sóðaskapar hefur fjölgað mikið síðan svokallað reykingabann á veitinga- og skemmtistöðum tók gildi síðustu helgi. Fram til þessa hefur lögregla lítið geta gert annað en að fara á staðinn og biðja fólk um að hafa hægt um sig.

Þann fyrsta júní voru reykingar bannaðar á öllum veitinga- og skemmtistöðum bæjarins. Vegna þessa hafa margir reykingamenn brugðið á það ráð að stíga út fyrir öldurhúsin og út á stétt til að fá sér smók. Af þessu hefur skapast mikill hávaði og sóðaskapur.

Verst er ástandið við Kaffi Stíg á Rauðarárstíg en þangað hafa ýmsir góðkunningjar lögreglu vanið komur sínar. Þeir hafa eftir reykingabannið stigið út á stétt til að fá sér smók með tilheyrandi sóðaskap og háreysti, íbúum hússins til mikils ama.

Lögregla höfuðborgarsvæðisins hefur ekki farið varhluta af ástandinu en útköllum vegna ónæðis og háreysti hefur fjölgað mjög. Lögreglan segist lítið annað geta gert en mætt á staðinn og beðið fólk að hafa lægra nú eða fara inn á staðina aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×