Innlent

Grunnskólar og nemar verðlaunaðir fyrir góða frammistöðu

Grandaskóli, Víkurskóli, Öskjuhlíðarskóli, Húsaskóli, Laugarnesskóli og Foldaskóli hlutu í dag hvatningarverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar sem veitt voru í fimmta sinn í dag. Þar að auki fengu þrjátíu nemendur nemendaverðlaun ráðsins.

Grandaskóli hlaut veðlaunin fyrir verkefnið Tónlistaruppeldi, Víkurskóli fyrir verkefnið Námsmarkmið í lestri og Öskjuhlíðarskóli fyrir verkefnið Tumi og fjársjóðurinn. Viðurkenningar menntaráðs hlutu Húsaskóli fyrir verkefnið Lifandi bókasafn, Laugarnesskóli fyrir verkefnið Katlagil og Foldaskóli fyrir verkefnið Flott án fíknar.

Hvatningarverðlaun menntaráðs Reykjavíkur eru veitt árlega sex til átta skólum fyrir framúrskarandi þróunar- og nýbreytniverkefni. Alls bárust 36 tilnefningar frá skólum, kennurum, foreldraráðum og foreldrafélögum.

Þá sendir hver grunnskóli tilnefningar til nemendaverðlaunanna en markmiðið með þeim er að hvetja grunnskólanema á öllum aldri til að leggja sig enn betur fram í námi, félagsstarfi og skapandi starfi.

Í dag voru verðlaun veitt fyrir góðan námsárangur, framfarir í námi, félagsstörf, samskiptahæfni og frumkvæði, leiðtogahæfileika, frammistöðu í íþróttum, listum, listsköpun og fleiru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×