Innlent

Grunaður um að hafa skotið í átt að konunni sinni

Eiginkona mannsins, sem handtekinn var í húsi í Hnífsdal í nótt eftir umsátur, hlaut áverka á andliti. Hann er grunaður um að hafa skotið að henni. Maðurinn, sem er á sextugsaldri, var mjög ölvaður.

Lögreglan á Vestfjörðum fékk tilkynningu laust fyrir klukkan ellefu í gær um að ölvaður maður væri að munda skotvopn í íbúðarhúsi við Bakkaveg í Hnífsdal. Eiginkona mannsins hafði flúið af heimilinu yfir til nágranna sinna þaðan sem tilkynningin barst lögreglunni.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að lögregla hafi farið á staðinn og tryggt öryggi fólks í nærliggjandi húsum. Sérsveit Ríkislögreglustjóra var kölluð út og komu níu meðlimir hennar, vopnaðir vélbyssum, með þyrlu Landhelgisgæslunnar vestur. Þangað var þyrlan komin um kortér í eitt í nótt.

Eftir viðræður við sérsveitarmenn kom maðurinn svo út kortér yfir tvö og var hann þá handtekinn og færður á lögreglustöðina á Ísafirði. Hann var að sögn lögreglu mjög ölvaður.

Sem fyrr segir er maðurinn grunaður um að hafa hleypt af skoti í nálægð við konuna sína. Hún ber minni háttar áverka í andliti og dvaldi á sjúkrahúsinu á Ísafirði í nótt vegna atviksins.

Lögregla á Vestfjörðum segir málið til rannsóknar og frekari frétta sé að vænta síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×